Náðu í appið
Öllum leyfð

Okkar eigin Osló 2011

(Our Own Oslo)

Justwatch

Frumsýnd: 4. mars 2011

Love is a fire. Will it warm your heart? Or burn down your house?

97 MÍNÍslenska

Myndin gerist í Osló, sumarhúsahverfi við Þingvallavatn og í Reykjavík. Fylgst er með tveimur gerólíkum manneskjum gera tilraun til þess að stofna til náinna kynna; Haraldi verkfræðingi hjá Marel og Vilborgu, bankastarfsmanni og einstæðri móður. Haraldur og Vilborg eru fólk sem við þekkjum öll. Þau hafa sína yndislegu kosti og hræðilegu galla. Þau taka... Lesa meira

Myndin gerist í Osló, sumarhúsahverfi við Þingvallavatn og í Reykjavík. Fylgst er með tveimur gerólíkum manneskjum gera tilraun til þess að stofna til náinna kynna; Haraldi verkfræðingi hjá Marel og Vilborgu, bankastarfsmanni og einstæðri móður. Haraldur og Vilborg eru fólk sem við þekkjum öll. Þau hafa sína yndislegu kosti og hræðilegu galla. Þau taka misgáfulegar ákvarðanir, eru oft á tíðum óheppin og klaufaleg í samskiptum en einnig leidd áfram af þrá sem við þekkjum öll eftir betra lífi, félagsskap, ást og hamingju.... minna

Aðalleikarar

Allt gengur upp
Okkar eigin Osló er búinn að fá vægast sagt góða dóma, en þegar blaðagagnrýnendur dæma íslenskar myndir er oftast ekkert að marka þá – þær fá aldrei minna en þrjár meðvirkar stjörnur, og strax fjórar, jafnvel fimm ef bara einhver snefill af hugsun eða sýn bætist ofan á “tæknilega færni” sem alltaf er nefnd. Núorðið ætti það ekki að koma neinum á óvart að íslensk mynd líti “alvöru” út, að ljósabúnaður hafi verið á settinu, að leikararnir hafi fengið að æfa sig. Það eru lágmarkskröfur, og sveitalegt að klappa sérstaklega fyrir því.

Okkar eigin Osló er þannig fullkomlega prófessjónal í öllu tilliti, og óþarfi að hafa fleiri orð um það. Hinsvegar er töluvert meira en snefill af hugsun og sýn sem réttlætir níuna sem ég ætla að næla á hana.

Plottið er ekki flókið; Haraldur og Vilborg eru tveir íslendingar sem hittast fyrir tilviljun í Osló og eiga þar eldheitar stundir. Vikuna eftir láta þau reyna á annað stefnumót, sem, fyrir röð tilviljana og óheppilegra atvika, endar í nokkurra daga sumarbústaðadvöl á Þingvöllum. Návígið reynir svo töluvert á nýfædda sambandið og óboðnir gestir misþyrma rómantíkinni enn frekar.

Myndin virkar fyrst og fremst því hún fjallar um karaktera sem eru af holdi og blóði. Haraldur, aðalpersónan sem Þorsteinn Guðmundsson leikur, er takt- og húmorslaus kerfiskall, sem þyrstir í eitthvað meira en hann hefur moðað úr lífi sínu. Ólíkt hinum týpíska fýlupoka þá er Haraldur hinsvegar ekki mannafæla og nöldrari, heldur ósköp góðhjartaður. Eftir því sem líður á myndina kemur líka hægt og bítandi í ljós að stjórnsemin og smásmuguleg reglufestan eru viðbrögð við rammskökku uppeldi og erfiðu umhverfi í æsku. Ólíkt uppgjörinu við móðurina í Bjarnfreðarsyni verður þetta hinsvegar ekki þunglamalegt og yfirdramatískt, enda ekki þungamiðjan í sögunni.

Og það er líklega stærsti kosturinn við OeO; hversu léttleikandi og snörp hún er út í gegn, svo gott sem hreinræktuð gamanmynd, án þess að verða farsakennd og tvívíð fyrir vikið. Það hefði vel verið hægt að segja þessa sögu í moll, en Reynir Lyngdal leikstjóri náði hárrréttum dúr, með nokkrum bláum nótum í bland. Sérstaklega er flott senan í lokin þegar Haraldur kemst loksins í almennilegt uppnám – þar er hressilegri tónlist stillt á móti alvöru tilfinninganna og óvænt, örsnöggt endurlit hittir mann beint í hjartastað.

Vilborg, sem Brynhildur Guðjónsdóttir leikur, er líka í glímu við fortíðina, en öllu meiri aksjón er í kringum hana og augljósara í fyrstu hversu týnd hún er. Vilborg er meingölluð, en fyrir hvern galla er kostur og maður skilur fullkomlega afhverju Haraldur getur sætt sig við alla vitleysuna sem hún hefur mætt með inn í líf hans.

Svo er myndin bara virkilega fyndin, mikið til vegna frábærra aukapersóna (og frábærra aukaleikara). Hilmir Snær og Laddi mjólka hvern dropa út úr sínum hlutverkum (sumir í salnum tóku því alvarlega þegar Hilmir Snær fór að skæla, en mér fannst það með fyndnustu atriðum í myndinni) en það er líklega María Heba sem stelur senunni sem misþroska systir Haraldar – gaman að sjá að einhver á Íslandi getur verið fyndin með andlitinu einu saman.

Auðvitað er myndin ekki lýtalaus; senan þar sem karakter Brynhildar missir sig undir dramatískum strengjatónum er stök feilnóta í annars léttu andrúmslofti myndarinnar og endirinn er ívið snubbóttur (þó það sé reyndar bætt upp með góðri aukasenu eftir að titlarnir byrja að renna). En heilt yfir frábær rómantísk gamanmynd, sem er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess hversu ömurlegar rom-com myndir Hollívúdd hefur boðið upp á undanfarin ár.
9/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Þunnildi í góða veðrinu
Okkar eigin Osló vill vera fyndin, dramatísk og heillandi “fílgúdd” mynd. Hún er það bara alls ekki. Ef svona grautþunn gamanmynd á að virka þá þarf hún að halda manni reglulega brosandi, svo ekki sé minnst á það að bjóða upp á persónur sem eru jafn skemmtilegar og þær eru furðulegar. Hún reynir bara alltof mikið á sig til að vera fyndin á köflum og stundum líður svo langt á milli brandaratilrauna að manni líði eins og hún sé bara ekki að reyna neitt. Mér fannst ekki einn einasti karakter hér vera athyglisverður eða viðkunnanlegur. Að horfa á þessa mynd er álíka vandræðalegt og að eyða heilli bústaðarferð með fólki sem er svo félagslega mismunandi að það á bara ekki heima undir sama þaki, og þar af leiðandi er samveran bara afskaplega þvinguð og óþægileg.

Myndin meinar vel samt og ég sé alveg hvað hún er að reyna að gera. Hún gerir það bara ekki rétt. Þorsteinn Guðmundsson fannst mér líka teygja aumingjarulluna alltof mikið. Það tekur á taugarnar að fylgjast með aðalpersónu sem lætur svona mikið vaða yfir sig og er hvorki athyglisverð né eftirminnileg. Þossi selur þetta prýðilega en handrit hans er langstærsti galli myndarinnar ásamt áhugalausri leikstjórn Reynis Lyngdal. Það vantaði meiri þróun hjá bæði aðal- og aukapersónum. Þær eru algjörar spýtur og ekki ein þeirra er þess virði að halda með eða þykja vænt um. Það er ætlast til þess að okkur líki vel við þær þrátt fyrir áberandi galla en það gengur bara alls ekki upp. Þær eru langflestar bara leiðinlegar manneskjur sem skilja nákvæmlega ekkert eftir sig. Samband Þorsteins við Brynhildi Guðjónsdóttur er líka stirt og klaufalega skrifað burtséð frá því að mér tókst aldrei að halda upp á þau sem par. Það tók ekki nema rétt svo 10 mínútur fyrir mig að sjá það að þessar persónur virtust ekki smella það mikið saman, enda leit bara út fyrir að tímabundin gredda í Noregi hafi verið það eina sem tengdi þau saman af einhverju viti. Ég fann aldrei fyrir kemistríunni.

Einu frammistöðurnar sem sýndu einhvern lit voru þær frá Brynhildi og Hilmi Snæ. Þau náðu líka eitthvað saman á skjánum í þokkabót og voru ekki eins einhliða og flestir aðrir. Það fer samt ekki á milli mála að Brynhildur eigi vafalaust hallærislegustu dramasenuna í allri myndinni. Laddi og Lilja Guðrún eru venjulega góð í flestöllu sem þau sjást í (Lilja var t.d. þrusugóð Óróa fyrir stuttu) en litla sub-plottið þeirra í þessari mynd var ekkert annað en uppfyllingarefni sem þjónaði heildarsögunni ekki neitt. Það skreið áfram hægt og rólega og leystist síðan bara upp. Öll myndin er dálítið þannig í hnotskurn. Þér líður eins og hún sé allan tímann að stefna eitthvert en á endanum gerir hún það ekki og breytist bara í klisju, og þá af amerísku gerðinni. Ég fann heldur ekki fyrir neinum húmor sem var ekki pínu þvingaður, eins og eitthvað sem maður sér úr þreyttum gamanþætti. Ég glotti stöku sinnum en hló aldrei upphátt nema rétt í lokin þökk sé Steinda Jr. Ég hef blendnar tilfinningar til mannsins en hér hefði ég glaðlega þegið það að fá hann í stærra hlutverk, m.a.s. lykilhlutverk.

Þessi mynd á einungis erindi til eldri áhorfenda (segjum svona 40+) sem eiga auðvelt með að hlæja yfir smotteríi. Ef þú ert t.d. gallharður aðdáandi Spaugstofunnar eða gamanmyndarinnar Jóhannes þá muntu veltast um allt gólf yfir þessari mynd. Hvað einkunnargjöf mína varðar ætla ég að vera pínu gjafmildur (en sleppa forgjöf að sjálfsögðu, þar sem ég geri augljóslega sömu kröfur til íslenskra mynda og erlendra). Myndin fær prik fyrir að reyna að vera með hjartað á réttum stað og leikararnir eru flestir sannfærandi. Hún fékk mig líka til þess að vilja skella mér í huggulegan sumarbústað á næstunni. Það er sterkur plús.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

19.03.2013

Íslensk kvikmyndahelgi

Tugir íslenskra kvikmynda verða sýndar um allt land næstkomandi helgi og er frítt inn á þær allar. Tilefnið er hækkun framlaga í Kvikmyndasjóð Íslands og þar með bjóða íslenskir kvikmyndagerðarmenn, í samstarfi...

05.03.2013

8 íslenskar í kvikmyndaveislu í Kaupmannahöfn

Átta nýlegar íslenskar kvikmyndir verða sýndar í Kaupmannahöfn og Árósum á íslenskum kvikmyndadögum sem haldnir verða í borgunum nú í mars. Kvikmyndadagarnir, sem heita "Islandsk film/ad nye veje", hefjast í Danmörku...

30.09.2012

29. september á RIFF - umfjöllun

Það er mér hulin ráðgáta af hverju ég hafði aldrei kíkt á stærsta kvikmyndatengda menningarviðburð Reykjavíkurborgar þar til nú. Það fer ekki fram hjá manni að þetta er viðburður með stóru V-i sem teygir sig út fyrir land...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn