Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Scream 4 2011

(Scre4m, Scream 4: Next Generation)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 20. apríl 2011

New decade. New rules.

111 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 60% Critics
The Movies database einkunn 52
/100

Scream 4 gerist 10 árum eftir atburði síðustu Scream-myndar, en þá lauk hræðilegri atburðarás, þar sem Sidney Prescott var hundelt af morðingja sem kallaði sig Ghostface eftir draugslegri grímunni sem hann bar. Eftir að fjöldi ungmenna í bænum Woodsboro lét lífið náðist loks að stöðva morðölduna. Nú hefur Sidney loks náð að komast yfir áfallið sem... Lesa meira

Scream 4 gerist 10 árum eftir atburði síðustu Scream-myndar, en þá lauk hræðilegri atburðarás, þar sem Sidney Prescott var hundelt af morðingja sem kallaði sig Ghostface eftir draugslegri grímunni sem hann bar. Eftir að fjöldi ungmenna í bænum Woodsboro lét lífið náðist loks að stöðva morðölduna. Nú hefur Sidney loks náð að komast yfir áfallið sem þessu fylgdi, meðal annars með því að skrifa sjálfshjálparbók um reynslu sína. Sú bók hefur slegið í gegn og er Sidney á mikilli kynningarferð um Bandaríkin. Síðasti viðkomustaðurinn er svo Woodsboro, vettvangur atburðanna hræðilegu, þar sem Sidney hefur ekki stigið fæti í áratug. Þar endurnýjar hún kynnin við lögreglumanninn Dewey og sjónvarpskonuna Gale, auk frændsystkina sinna. Hins vegar hefur Sidney ekki verið lengi á staðnum þegar Ghostface lætur á sér kræla á ný og ný morðalda fer að ríða yfir bæinn...... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Grimmt og gott bíókvöld
Mér finnst að þessi mynd hefði í rauninni átt að heita Scream 3 og sú mynd sem kom út árið 2000 átti aldrei að verða til. Ekki bara er þessi fjórða mikið betri, heldur er efnisleg tenging við sú þriðju nánast engin. Þú gætir horft á fyrstu tvær myndirnar og svo þessa án þess að missa af nokkru merkilegu. Ég held jafnvel að það sé viljandi gert af Kevin Williamson enda skrifaði hann allar myndirnar nema þriðju. Ég efast ekki um að hann sé sammála um það að sú mynd hafi svert dálítið nafn seríunnar, og því snýr hann aftur í næstum því jafn góðum gír og þegar hann skrifaði fyrstu tvær. Ekki alveg samt, en nógu nálægt því til að myndin teljist fullnægjandi.

Það er bara ekki hægt að fjalla um Scream 4 án þess að minnast á það hvað manni fannst um hinar. Sjálfur myndi ég aldrei taka mark á umfjöllun um hana nema við gagnrýnandinn værum á sömu blaðsíðu með þær. Fyrsta myndin er auðvitað meiriháttar og mér finnst sú önnur jafnvel betri þó svo að það muni einungis um hársbreidd á skordýri. Þær eru báðar svo snjallar, fyndnar og spennandi og ég dýrka hvernig við kvikmyndanördarnir fáum jafn mikið út úr þeim hryllingsmyndaaðdáendur, ef ekki meira. Handrit Williamsons náðu að vera hnyttin og gáfuð án þess að drukkna í egói og sjálfsöryggi. Og þó svo að mér hafi aldrei beint fundist þetta svakalega hrollvekjandi myndir, þá voru þær stundum óbærilega spennandi. Síðan kom Ehren nokkur Kruger, sem er að mínu mati einn slakasti handritshöfundurinn í Hollywood (flettið hann upp. Mun fleiri vondar myndir að baki en ágætar), og hann snéri hér um bil öllu við sem Williamson gerði rétt.

Scream 3 var alltof góð með sig og það skein svo þreytandi mikið í gegn hvað henni fannst hún vera snjöll. Díalógurinn var ekki lengur hnyttinn og skemmtilegur heldur pirrandi og asnalegur. Gömlu persónurnar voru skyndilega orðnar flatar á meðan þær nýju voru jafn óþolandi og samtölin (tek það gjarnan fram að Parker Posey fer svakalega í mig). Atburðarásin var spennulaus, tónlistin alveg mökk leiðinleg, lokafléttan veik og endaspretturinn ekkert skárri. Alveg síðan ég sá þessa mynd fyrst hef ég haft kvikindislega lágt álit á henni og þegar ég ber hana saman við gæðin á fyrstu tveimur myndunum, þá hata ég hana ennþá meir. Wes Craven fannst mér meira að segja vera furðulega latur þessa umferð en ef þið skoðið þessa mynd ásamt Cursed og My Soul to Take, þá sjáið þið að greyið kallinn hefur átt ansi slæman áratug að baki.

En þá, loksins í fjórðu málsgrein, snúum við okkur að fjórðu myndinni. Ég var skeptískur fyrirfram því hvorki Williamson né Craven eru svipaðir í dag og þeir voru á tíunda áratugnum. Afraksturinn sýndi mér svo að þeir leyna enn góðu efni á sér. Maður tekur auðvitað eftir því að mennirnir séu farnir að hrörna svolítið. Handritið virkar með þeim endalausu tilvísunum og földu nördabröndurum sem það hefur en samt dettur það stöku sinnum í þá gryfju að reyna aðeins of mikið. Þetta gerist sem betur fer ekki oft, en maður finnur fyrir því þegar myndin þykist vera sniðug í stað þess að vera þannig eðlilega. Craven fær líka svolítinn skell á sig fyrir að ná ekki svipaðri spennuuppbyggingu og hann gerði áður. Það vantar tilfinninguna sem lætur þig hanga gjörsamlega á sætisbrúninni eða lemja sessunautinn þinn af spennu. Endirinn er að vísu undantekning, en á vissum tímapunkti líður þér eins og myndin sé að verða búin og þá hrekkur hún skyndilega í háan gír og verður hreint út sagt brjáluð, og dásamlega kjánaleg á sama tíma. Þessi endir náði - án gríns - að breyta viðhorfi mínu gagnvart allri myndinni. Ég hélt að mér hafi fundist hún fín þegar fór að líða að lokum, en eftir þessa senu var ég viss um að hún væri algjörlega þess virði að mæla með!

Af öllum Scream-myndunum er þessi líka sú fyndnasta. Það skyggir auðvitað á alvarleikann stundum en skemmtanagildið missir engin stig þrátt fyrir það. Ég var mjög ánægður með hraðann á myndinni enda fer hún fljótt af stað (með sjúkt fyndnu “upphafsatriði” – sem sýnir fullkomlega hvers konar húmor við getum átt von á framundan) og er almennt meira í takt við fyrstu myndina heldur hinar. Þar af leiðandi tefur hún ekki eins mikið og nr. 2 átti stundum til með að gera (en á hinn bóginn er hún alls ekki jafn taugatrekkjandi) og við skulum ekki fara út í þriðju nánar hvað keyrslu varðar. Ég geispa bara við það að hugsa til hennar.

Það er bara svo skemmtilegur meta-fílingur á Scream 4 að það er erfitt að skemmta sér ekki bara örlítið. Útlitsfríðu leikararnir standa sig einnig flestir vel og það sem skiptir mestu máli er að ráðgátan er alltaf einu skrefi á undan þér. Þú heldur að þú hafir áttað þig á öllu en samt tekst Williamson að koma þér á óvart á réttum tímum. Venjulega missa svona myndir líka oft kraftinn þegar þú veist öll svörin en ég naut þess í botn hvert þessi fór eftirá. Skoðun hennar, eða réttara sagt leikstjórans og pennans, gagnvart reboot-myndum og endurgerðum kemst einnig til skila á svo skemmtilegan máta að það er eiginlega þess virði að klappa yfir.

Þú veist annars alveg hvað þú ert að fara á og ef þú ert Scream- eða hryllingsmyndaaðdáandi almennt ætti þetta að vera gargandi stuð fyrir þig allan tímann. Taktu ruglið í sátt, dragðu vini þína og njótið ykkar.

7/10

PS.
Ég verð mjög sár ef Craven og félagar hætta ekki hér, því þetta er akkúrat trausti endirinn á seríunni sem hin myndin átti að gefa okkur. Segið núna með mér í sameiningu: STOPP!

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

01.09.2015

Wes Craven minnst

Kvikmyndaleikstjórinn Wes Craven lést 30. ágúst af völdum illkynja heilaæxlis. Hans verður sárt saknað af hryllingsmyndaunnendum um heim allan. Hann var 76 ára gamall. Það eru ekki margir leikstjórar sem ná að marka stefnu í ákveðnum...

12.11.2012

Viljið þið sjá Scream 5?

Leikstjórinn Wes Craven hefur spurt aðdáendur sína á Twitter hvort þeir hafi áhuga á fimmtu Scream-myndinni. Eftir ágætt gengi fjórðu myndarinnar í miðasölunni lét hann hafa eftir sér að fimmta myndin yrði...

29.09.2011

Craven segir Scream 5 á leiðinni

Hryllingstáknið Wes Craven, leikstjóri Scream myndanna, segir fimmtu myndina vera á leiðinni. Þetta kemur talsvert á óvart, því Scre4m þótti vera vonbrigði í miðasölunni, en myndin kostaði 40 milljónir Bandaríkjadala a...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn