Náðu í appið
Bönnuð innan 12 ára

Green Lantern 2011

(Emerald Dawn)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 3. ágúst 2011

In Our Darkest Hour, There Will Be Light.

104 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 26% Critics
The Movies database einkunn 39
/100

Í heimi sem er jafn stór og hann er undarlegur hefur lítill en magnaður hópur leynst um aldir. Verndarar friðar og jafnréttis, hinir svokölluðu Green Lantern Corps. Innan þeirra raða má finna verur alls staðar að úr alheiminum, þar sem hver og ein er tilbúin að fórna sér fyrir hina og allar eru með ofurkrafta fyrir tilstuðlan hrings. Þegar ný ógn, Parallax,... Lesa meira

Í heimi sem er jafn stór og hann er undarlegur hefur lítill en magnaður hópur leynst um aldir. Verndarar friðar og jafnréttis, hinir svokölluðu Green Lantern Corps. Innan þeirra raða má finna verur alls staðar að úr alheiminum, þar sem hver og ein er tilbúin að fórna sér fyrir hina og allar eru með ofurkrafta fyrir tilstuðlan hrings. Þegar ný ógn, Parallax, ógnar jafnvægi heimsins munu örlög þeirra sem og örlög Jarðarinnar liggja í höndum nýjasta meðlims þeirra, jarðarbúans Hal Jordan. Hal er snjall en hrokafullur flugmaður og hafa hinir félagar hans í Green Lantern-hersveitinni litla trú á honum, en kannski minnsta trú hefur hann sjálfur. Hann er þó óneitanlega týndi hlekkurinn í keðjunni og í gegnum viljastyrk og þvermóðsku sýnir hann þeim að hann býr yfir einhverju sem þau hin gera ekki, mennsku. Með stuðningi æskuástar sinnar, Carol Ferris fetar Hal veginn í átt að hugrekkinu. Ef hann getur unnið bug á eigin hræðslu getur hann hæglega orðið fremstur í röðum Green Lantern. Aðeins þá getur hann bjargað heiminum.... minna

Aðalleikarar

Myglugræn óreiða
Guði sé lof fyrir Christopher Nolan! Hann sýndi okkur ekki bara að það væri í góðu lagi að búast við alvöru, vandaðri kvikmynd af rándýru efni sem væri byggt á myndasögu (í stað þess að stilla einungis væntingar fyrir auðmelt og fljótgleymt poppkornsbíó) heldur er hann hingað til búinn að vera keisari DC stúdíósins, sem er farið að haltra aðeins á eftir Marvel að mínu mati. Green Lantern gerir þessu merki sínu enga greiða, en sem betur fer get ég sagt að hún sé ekki jafn slæm og Jonah Hex og Catwoman. Myndin reynir að segja sögu sína með miklum áhuga og er sjónrænt séð afar metnaðarfull, en hún er illa skrifuð, klunnalega samsett og líður fyrir svipuð vandamál og fyrsta Fantastic Four-myndin hafði (semsagt stanslausa uppbyggingu og lítið "payoff"). Og það er ekki alveg myndin sem aðrar ofurhetjumyndir vilja líkjast.

Þrátt fyrir að vera ýktari að öllu leyti þá vill þessi mynd svo mikið vera eins og Batman Begins. Og alveg eins og í henni þá er eitt af meginþemunum meira að segja ótti, og hetjan okkar glímir við hann á meðan illmennið nýtir hann sér til vopns. Bætið svo við vannýttu aukaillmenni, einu stykki æskuvinkonu sem hetjan er hrifin af og þá fer þetta að hljóma meira eða minna eins og uppskrift. En í stað þess að vera eins og bestu DC-myndirnar sem einblína á persónusköpun, frásögn og eðlileg mannleg vandamál þá endar Green Lantern með því að vera formúlubundin upphafssaga sem reynir að heilla mann en tekst samt ekki að gefa okkur eina einustu senu sem mætti kalla minnisstæða eða grípandi. Mér leist prýðilega á hetjuna sjálfa og leið allan tímann eins og hún ætti miklu betra skilið en þetta. Ég efa ekki að aðdáendum líði eins.

Myndin reynir að gera aðeins of mikið á of litlum tíma. Sum atriðin eru bjánalega stutt og svo eru önnur í eðlilegri lengd. Þetta orsakar því að myndin flæðir ekkert alltof vel og hrekkur heldur aldrei í skemmtilega gírinn sem maður vonast eftir. Ég veit ekki hvort ég eigi að kenna handritinu um lélegan flutning á upplýsingum, framleiðendum fyrir að hafa skorið myndina niður í klippiherberginu eða leikstjóranum fyrir óvandaða meðhöndlun á efninu. Heildarlengdin rétt slefar yfir 100 mínútur þegar hún hefði auðveldlega getað þraukað hátt í hálftíma í viðbót. Maður spyr sig samt hvort það hefði gert eitthvað betra miðað við kjánalegu samtölin sem maður þarf stundum að þola.

Ég hef ekki lesið Green Lantern-myndasögurnar en ég get alveg ímyndað mér að fantasíuheimurinn í þeim sé sneisafullur af skemmtilegum hugmyndum. Margar þeirra skila sér í gegn hérna, en myndinni liggur svo mikið á að flakka á milli atburða að maður fær varla að njóta bestu og flottustu senanna. Sagan reynir að útskýra allt sem hún getur á stuttum tíma til að áhorfandinn skilji geimveruheiminn og hvernig hann virkar en eftir smátíma verður manni bara slétt sama um þetta allt saman. Tölvuteiknuðu umhverfin eru vissulega flott og brellurnar almennt fínar þótt ég sé á þeirri skoðun að Green Lantern-búningurinn hefði mátt vera aðeins betur unninn. Í sumum skotum lítur Ryan Reynolds út eins og fljótandi haus. Myndin kostaði u.þ.b. það sama og Transformers: Dark of the Moon og þar gat maður miklu betur séð peninginn sem fór upp á skjáinn.

Reynolds sýnir hlutverkinu samt mikinn áhuga, en maður býst svosem ekki við öðru frá einhverjum sem er sagður vera mikill aðdáandi fyrirbærisins. Handritið kemur aftur á móti í veg fyrir að hægt sé að kalla hann eitthvað góðan því sumir frasarnir sem hann fær eru svo hallærislegir að hinir virtustu leikarar gætu ekki látið þá hljóma sannfærandi. Hlutverkið er ekki einu sinni vel skrifað og það eina sem er í boði fyrir leikarann er að vera hann sjálfur eða stöðugt niðurdreginn. Mark Strong stendur sem fyrr undir eftirnafni sínu og hefur býsna sterka nærveru, en hlutverkið hans býður ekki upp á margt annað en kynningu svo framhaldsmyndin (ef hún verður gerð) geti tekið við. Blake Lively lítur þokkalega út en er einstaklega óspennandi og klisjukenndur karakter á alla vegu. Hún leikur konu í klípu sem er álíka hrifin af aðalkarakternum og hann af henni. Ég tel að það gerist varla dæmigerðara en það í svona mynd.

Peter Sarsgaard er sá eini sem fær persónu sem er eitthvað nálægt því að vera áhugaverð, en myndin hleypur svo mikið yfir frásögnina að hann verður aldrei neitt meira en tvívíður skúrkur (sem öskrar eins og kelling, óvenju oft). Ég þoldi hins vegar ekki hvað það verður lítið úr honum. Handritshöfundarnir vissu greinilega ekkert um hvað átti að gera við hann svo þeir losuðu sig við hann fullsnemma og á vægast sagt aumingjalegan hátt. Svo er sagan oft að gefa til kynna að Reynolds, Lively og Sarsgaard áttu einhvers konar vinasamband fyrir viðburði myndarinnar en það er aldrei farið út í það af neinu viti, jafnvel þó svo að sá bakgrunnur virðist skipta sögunni miklu máli. Enn eitt merkið um lélegt handrit, kærulausa framleiðendur eða nærsýnan leikstjóra.

Ljóst er að þessi mynd hafi ekki verið neitt nema feitur launaseðill fyrir Martin Campbell. Ég hef sjaldan séð mann taka jafnmiklar sveiflur í leikstjórastólnum þegar kemur að spennu- eða hasarmyndum. Stundum er hann með áhugann á réttum stað og kann heldur betur lagið á góðum hasar og stöðugu afþreyingargildi. Svo koma slæmu dagarnir hans, og þá er hann bara hreinlega latur og leiðinlegur. Ég trúi ekki að ég myndi frekar horfa aftur á Vertical Limit heldur en þessa, og hún er almennt talin ein af slakari myndum leikstjórans. Green Lantern er samt ekki beinlínis léleg mynd því það eru nokkrar ágætar senur í henni og sama hvernig hún kemur út á endanum þá sér maður að hún að minnsta kosti reyndi, þótt hún hafi greinilega ekki reynt sitt besta.

Þetta er einmitt þannig mynd sem á að vera skemmtileg, spennandi, fyndin og töff. Hún er því miður voða sjaldan skemmtileg, aldrei spennandi, bara einstaka sinnum fyndin (ef Reynolds á ekki a.m.k. nokkra góða brandara í bíómynd þá er hann mikið veikur) og verst er að hún er ekki jafn töff og hún ætti að vera. Hefði líka kaotíski hasarinn í lokin verið í aðeins meira en einhverjar 5 mínútur þá hefði myndin hugsanlega náð fimmu í einkunn, en fyrir að vera svona skelfilega ófullnægjandi mynd á marga vegu verður hún að síga örlítið niður. Hún versnar líka smám saman í minningunni því meira sem ég hugsa um hana.

Og já, "deus ex machina" endirinn var heldur ekkert alltof vel séður.

4/10

Ég trúi því varla að The Green Hornet (HIN græna hetjumyndin á árinu) hafi verið svo miklu, miklu skemmtilegri en þessi. Semsagt Reynolds sigraður af Rogen? Ái.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

18.01.2021

Lengsta ofurhetjumynd allra tíma

Justice League útgáfa Zacks Snyder verður ekki gefin út í fjórum hlutum eins og áður var gefið upp, heldur sem ein risamynd - cirka 240 mínútur að lengd. Um er þá að ræða lengstu ofurhetjumynd sem hingað til hefur v...

22.08.2020

Ofurstikla fyrir leikstjóraútgáfu Justice League

Glænýtt sýnishorn fyrir svonefndu Snyder-útgáfu ofurhetjumyndarinnar Justice League hefur verið afhjúpað, DC-aðdáendum til mikillar ánægju. Leikstjórinn Zack Snyder frumsýndi þessa súperstiklu á hátíðinni DC Fandom...

18.04.2020

Týnda Justice League myndin: Er lengri útgáfa leikstjórans loksins á leiðinni?

Óhætt er að segja að ofurhetjumyndin Justice League hafi ekki lent með miklum látum þegar myndin leit dagsins ljós um veturinn árið 2017. Aðsókn myndarinnar stóð langt undir væntingum framleiðenda, áhorfendur og gagn...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn