Lengd Rogue One: A Star Wars Story opinberuð

Nú eru aðeins tæpir tveir mánuðir þar til fyrsta Star Wars hliðarsagan, Rogue One: A Star Wars Story, kemur í bíó. Myndarinnar er, eins og flestra Star Wars mynda, beðið með mikilli óþreyju, og lokastiklan úr myndinni var birt í síðustu viku.

rogue

Þó eru enn að bætast við upplýsingar fyrir áhugasama. Nú er búið að opinbera lengd myndarinnar, þó að framleiðendur myndarinnar, Disney og LucasFilm, hafi ekki staðfest þær upplýsingar enn.

Vefsíðan Making Star Wars komst yfir ástralskt viðburðadagatal fyrir kvikmyndasýningar, og þar er sagt að lengd Rogue One sé 133 mínútur ( tvær klukkustundir og 13 mínútur).  Ef þetta er rétt, þá er myndin fimm mínútum styttri en Star Wars: The Force Awakens sem kom í bíó á síðasta ári, en hún var 138 mínútur að lengd.

Þá er þetta nákvæmlega sama lengdin og Star Wars myndin The Phantom Menace.

Samkvæmt MovieWeb vefsíðunni telja margir Star Wars aðdáendur að þessi sýningartími myndarinnar sé of stuttur, og dugi ekki til að koma til skila öllu því efni sem þarf að afgreiða í myndinni. Aðrir hinsvegar telja þetta vera kappnóg.

Leikstjóri Rogue One: A Star Wars Story er Gareth Edwards og helstu leikarar eru Felicity Jones, Diego Luna, Ben Mendelsohn, Donnie Yen, Mads Mikkelsen, Alan Tudyk, Riz Ahmed, Jiang Wen og Forest Whitaker.

Rogue One er fyrsta af þremur stökum hliðarmyndum í Star Wars bálkinum sem væntanlegar eru. Hinar eru stök Han Solo mynd, með Alden Ehrenreich í hlutverki Solo, sem kemur í bíó 25. maí 2018, og mynd um Boba Fett, sem kemur í bíó árið 2020.