Star Wars: Glover verður Lando í Han Solo myndinni

Lucasfilm ltd. tilkynnti í dag að Community og Atlanta leikarinn Donald Glover hefði verið ráðinn í hlutverk Lando Calrissian í enn ónefndri og stakri Star Wars hliðarmynd um Han Solo.

donald-glover

Myndin kemur í bíó árið 2018, með Alden Ehrenreich í hlutverki Han Solo, eða Hans Óla, eins og persónan heitir á íslensku. Leikstjórar eru Phil Lord og Christopher Miller.

Harrison Ford og Billy Dee Williams léku þá Han og Lando í upphaflegu Star Wars myndunum.

lando-han-solo

„Við erum svo lánsöm að hafa fengið jafn hæfileikaríkan listamann til liðs við okkur og Donald er,“ sögðu þeir Lord og Miller í sameiginlegri tilkynningu. „Þetta eru stór spor sem hann þarf að feta í, og jafnvel enn stærri skikkja, en sem passar honum fullkomlega, sem mun spara okkur peninga varðandi búningamál. Einnig viljum við opinberlega biðja Donald afsökunar fyrir að eyðileggja Comic-Con fyrir honum til frambúðar.“

Í myndinni mun Lando birtast okkur á mótunarárum sínum, sem bófi á uppleið í undirheimum stjörnukerfisins – mörgum árum fyrir atburðina þar sem Han, Leia og Svarthöfði koma við sögu í The Empire Strikes Back og uppgang hans sem uppreisnarleiðtoga í Return of the Jedi.

Glover er best þekktur fyrir að semja og leika aðalhlutverkið í hinni rómuðu sjónvarpsseríu Atlanta, auk þess sem hann hefur leikið í fjórum þáttaröðum sjónvarpsþáttanna Community. Auk þess hefur hann fengið tilnefningu til Grammy verðlauna fyrir hljómplötu sína Because the Internet, undir listamannsnafninu Childish Gambino.

Glover lék einnig í Óskarstilnefndu myndinni The Martian og sést næst í Spider-Man: Homecoming.