Sundáhrifin verðlaunuð í Cannes

Sundáhrifin, hin fransk/íslenska gamanmynd leikstjórans Sólveigar Anspach heitinnar, vann í gærkvöld til SACD verðlaunanna fyrir bestu frönskumælandi kvikmynd á lokahófi Director‘s Fortnight dagskránnar á Cannes kvikmyndahátíðinni.

L'EFFET AQUATIQUE

Sundáhrifin fjallar um Samir, sem er staðráðinn í því að bæta ráð sitt gagnvart sundkennara sínum Agathe, sem hann er yfir sig ástfanginn af. Hann eltir hana alla leið til Íslands en það kemur babb í bátinn þegar hann verður fyrir rafstraumi og missir minnið. Hvernig getur Samir bætt fyrir eitthvað sem hann man ekki? Getur Agathe hjálpað honum að endurheimta minnið, og um leið ást hans í hennar garð?

Sólveig Anspach leikstýrði Sundáhrifunum og skrifaði handritið ásamt Jean-Luc Gaget. Skúli Malmquist framleiddi myndina fyrir Zik Zak kvikmyndir ásamt Patrick Sobelman sem framleiddi fyrir Ex Nihilo. Í stórum hlutverkum í myndinni eru Didda Jónsdóttir, Frosti Jón Runólfsson, Ingvar E. Sigurðsson og Kristbjörg Kjeld. Með aðalhlutverk fara Florence Loiret Caille og Samir Guesmi.

Tökur fóru fram haustið 2014 og vorið 2015 í Frakklandi og á Íslandi. Á meðan tökum stóð háði Sólveig baráttu við illvígt krabbamein og lét þá baráttu ekki aftra sér frá því að klára tökur og eftirvinnslu myndarinnar að mestu leyti. Er það í takt við dugnað hennar og elju þegar kom að kvikmyndamyndagerð, eins og segir í frétt frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Þetta er í þriðja sinn sem kvikmynd eftir Sólveigu er valin til þátttöku á Cannes. Árið 2001 var franska heimildamyndin Made in the USA einnig valin til þátttöku í Director’s Fortnight hluta hátíðarinnar og fór það svo að myndin vann François Chalais verðlaun hátíðarinnar. Árið 2003 var leikna kvikmyndin Stormviðri (einnig gerð í samvinnu við Frakka) valin til þátttöku í Un Certain Regard hluta hátíðarinnar.

Sundáhrifin er þriðja leikna kvikmyndin í fullri lengd eftir íslenskan leikstjóra sem er valin til þátttöku í Director‘s Fortnight hluta Cannes hátíðarinnar. Árið 1984 var Atómstöðin eftir Þorstein Jónsson valin til þátttöku og árið 2011 var Eldfjall eftir Rúnar Rúnarsson valin til þátttöku.