Áhorfendur risu úr sætum

Sundáhrifin, frönsk-íslensk kvikmynd leikstjórans Sólveigar Anspach heitinnar, var heimsfrumsýnd þann 17. maí á Cannes kvikmyndahátíðinni sem hluti af Director‘s Fortnight dagskránni og hlaut afar góðar viðtökur.

SEQ 13, J3, Cours de natation, Samir, Agathe et ado

Í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands segir að Sundáhrifin hafi verið sýnd fyrir smekkfullum sal og að sýningu lokinni risu áhorfendur úr sætum sínum og veittu aðstandendum langt lófatak.

Ýmsir aðstandendur myndarinnar voru viðstaddir sýninguna, m.a. Skúli Fr. Malmquist framleiðandi og Didda Jónsdóttir leikkona ásamt aðalleikurunum Florence Loiret Caille og Samir Guesmi, framleiðandanum Patrick Sobelman og öðrum handritshöfundi myndarinnar Jean-Luc Gaget.

Sundáhrifin er ein af aðeins 18 myndum sem voru valdar til þátttöku í Director‘s Fortnight í ár.

Í kjölfar þessara sýninga hefur Sundáhrifin hlotið góða dóma, m.a. hjá hinum virtu tímaritum Screen International og The Hollywood Reporter.