Pegg óttaðist um líf Cruise

Simon Pegg, sem leikur á móti Tom Cruise í Mission: Impossible – Rogue Nation, segist hafa óttast um líf Hollywood stjörnunnar í einu áhættuatriðanna. mission

Cruise leikur iðulega í áhættuatriðum sínum sjálfur og í einu atriði myndarinnar hangir hann utan í Airbus-herþotu þegar hún er að taka á loft.

„Þegar hún tók á loft þurfti hann að vera með sérstakar linsur svo að augun í honum myndu ekki springa. Það var ótrúlegt að horfa á þetta. Á sama tíma hugsaði ég með mér: „Hann gæti dáið. Ég er að fara að horfa á Tom Cruise verða að klessu á flugbrautinni,“ sagði Pegg.

Tom Cruise var sjálfur með miklar áhyggjur af atriðinu. „Ég hugsaði með mér, hvað er ég eiginlega að gera?,“ sagði hinn 53 ára kappi við tímaritið Empire.

Taka þurfti upp atriðið átta sinnum og hékk Cruise í öryggisbelti á meðan hann flaug 1,5 kílómetra upp í loftið utan á vélinni. Þrátt fyrir að hafa fengið stein í rifbeinin á meðan á einu fluginu stóð hélt hann ótrauður áfram og lauk tökunum.