Hrútar vann til verðlauna í Cannes

Kvikmyndin Hrútar vann til aðalverðlauna í Un Certain Regard-keppninni á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hrútar Rams

Þetta er mikill heiður fyrir leikstjórann Grím Hákonarson og samstarfsfólk hans, enda er Cannes ein virtasta kvikmyndahátíð heims.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd í fullri lengd vinnur verðlaun á hátíðinni.

Vika er liðin síðan Hrútar var heimsfrumsýnd á Cannes og fékk hún mjög góðar viðtökur. Gagnrýnandi blaðsins New York Times hrósaði henni til að mynda í hástert.

Hrútar fjalla um tvo íslenska sauðfjárbændur, bræðurna Gumma og Kidda, sem hafa ekki talast við í áratugi þrátt fyrir að búa hlið við hlið í afskekktum dal. Þeir neyðast til að tala saman á ný þegar riðuveiki kemur upp í dalnum.