Stockfish lýkur um helgina

Framundan er lokahelgi Stockfish – evrópskrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík og fer því hver að verða síðastur að sjá fjölbreyttar og vandaðar kvikmyndir hátíðarinnar. Þetta kemur m.a. fram í fréttatilkynningu frá hátíðinni.

stockfish

Þrjár af kvikmyndum helgarinnar voru í ár tilnefndar til Óskarsverðlauna. Pólska vinningsmyndin Ida, hin eistneska Tangerines ásamt stórkostlegri lokakvikmynd hátíðarinnar, hinni argentínsku Wild Tales sem er leikstýrt af Damián Szifrón og framleidd af Pedro Almodovar. Í kvikmyndinni eru sagðar sögur sem allar tengjast hefnd sem getur bæði verið sæt og andstyggileg. Í þeim sex sögum sem eru sagðar í kvikmyndinni er hún fyrst og fremst drepfyndin, kjánaleg og kómísk.

From Shoestring to the Oscars

Um helgina verður einnig boðið upp á fræðslu um hvernig mögulegt er að fjármagna kvikmyndir án aðstoðar stóru kvikmyndaveranna. Christine Vachon, framleiðandi verður með fyrirlesturinn „Úr öskustónni á Óskarinn“ sem hefst á laugardag kl. 15:00. Christine mun fjalla um fjárhagshliðar kvikmyndagerðar og þær hindranir sem framleiðendur mynda utan bandarísku stúdíóanna þurfa að yfirstíga í kvikmyndalandslagi nútímans. Hún hefur áralanga reynslu af því að framleiða óháðar bandarískar kvikmyndir sem margar hafa sópað til sín verðlaunum.

Úrslit Sprettfisksins ráðast á laugardagskvöld

Á sunnudag verða sýndar vinsælustu kvikmyndir hátíðarinnar, ásamt aukasýningu á þeirri mynd sem hlýtur áhorfendaverðlaunin. Einnig verða sýndar stuttmyndirnar sem tóku þátt í Sprettfisknum 2015, stuttmyndakeppni hátíðarinnar. Verðlaunin verða afhent í lokaathöfn Stockfish – evrópskrar kvikmyndahátíðar á laugardagskvöld.

Stikk: