Vildu ekki drepa neinn

Það er greinilegt að aðstandendur og leikarar í bresku spennuþáttunum Fortitude hafi notið dvalarinnar í botn hér á landi, því í nýju og lengra myndbandi en við höfum séð áður frá tökum þáttanna, er fjallað sérstaklega um Ísland sem tökustað, og farið fögrum orðum um landið okkar.

fortitude1

Tökur þáttanna fóru fram á Reyðarfirði með hléum frá janúar sl. og fram á sumar. Þættirnir eiga að gerast á Svalbarða þar sem engir alvarlegir glæpir hafa átt sér stað, þar til nú, en eins og kemur fram í myndbandinu þá var útilokað að taka þættina upp á Svalbarða sjálfum þar sem þar er m.a. of kalt og of dimmt. „Við vildum ekki drepa neinn,“ segir framleiðandinn Matthew Bird í myndbandinu og hlær.

Með aðalhlutverk í Fortitude fara Stanley Tucci, Sofie Gråbøl og Christopher Eccleston. Íslenski leikarinn Björn Hlynur Haraldsson fer einnig með hlutverk í þáttunum, sem verða alls 12 talsins. Um 70 Íslendingar unnu að gerð þáttanna við tökur á Austurlandi.

Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan: