7D bíó: Gagnrýni

Í sumarþurrkinum ákvað ég að prufa þetta blessaða sjövíddarbíó, sem er fyrst og fremst ætlað börnum og barninu í manni sjálfum. Þetta hefur verið að stara á mig í hvert skipti sem ég fer í Smárabíó. Til að kasta peningum ekki á glæ ákvað ég að gera stutta umfjöllun um þessar tvær myndir sem eru búnar að vera í boði frá því að Skemmtigarðurinn góði opnaði. Og kanna hvort þessar sitthvoru fimm mínútur séu tæplega þúsund króna virði…

7D: The Forbidden Mine

Hugmyndin að 7D hryllingsleik er frábær ef hún er vel framkvæmd. Ég er ekki viss um að það hafi verið takmarkið hjá The Forbidden Mine þó að leikurinn gerist með beinagrindum í dimmum námum. Leiknum tekst ekki að koma vönum spilara á óvart hvað þá bíó áhugamanni.  Þú fylgir litlum gömlum kalli sem hefur það hlutverk að tæma námurnar af illum verum. Þú færð stig fyrir að drepa hvern óvin og auðvitað mínus stig fyrir að vera smávægilegur sadisti og skjóta litla gamla karlinn.

Þetta er fyrsta 7D myndin sem bíóið sýnir þannig að þú mátt búast við því að hreyfikerfið tengist lítið upplifuninni. Ég veit ekki með ykkur en ef það á að rukka mig um 850 krónur fyrir þá upplifun þá finnst mér eins og ég hafi verið rændur. Leikurinn hefur þá eitt takmark og það er að hræða þig sem misheppnast skelfilega og ekkert kemur þér á óvart. Því miður er söguþráðurinn virkilega fyrirsjáanlegur. Ef þú hefur áhuga á lélegum hrollvekjum og að öskra eins og lítil gelgja þá er þetta alveg örugglega eitthvað fyrir þig.

Los Banditos

Hver elskaði ekki kúreka þegar þeir voru yngri. Þeir voru endalaust svalir og gátu gert það sem þeir vildu. Í Los banditos færð þú að fara í hlutverk kúreka sem á að stoppa klikkaðan vísindamann sem hefur búið til drápsvélmenni? Þrátt fyrir kjánalega hugmynd tekst þeim að halda áhuga þínum við á hlutverkinu með því að kasta nógu mörgum óvinum á þig til að trufla þig við „söguþráðinn.“ Í þetta skipti lítur út fyrir að þeir hafa lært talsvert meir á 7D upplifunina en ákveða þó að misnota aðeins meira hreyfikerfið í stólunum. Þetta verður virkilega gaman á tímapunkti en ég get ekki hugsað mér hvernig fólk tæki í það ef upplifunin væri meira en í 5mín. Það eina sem fór í taugarnar á mér í þetta skipti var það að skotin þín virðast hafa lítil sem engin áhrif á stýringu heimsins. Ég skil í rauninni að maður myndi ekki vilja borga þessa upphæð fyrir myndina og fá minni tíma. Ef þú hefur farið á hvorugan leikinn veldu þá þennan. Hann er áberandi skemmtilegri og þú færð talsvert meira fyrir peninginn.