Eva Green í 300: Battle of Artemesia

Undirbúningur fyrir næstu 300 mynd virðist vera að komast á skrið, og nú voru að berast þær fréttir að fyrrum Bond-stúlkan Eva Green væri í viðræðum um að taka að sér titilhlutverkið, Artemisia.

Zack Snyder átti þátt í handriti myndarinnar og framleiðir, en leikstjóri verður Noam Murro (Smart People). Myndin var þróuð samhlið myndasögunni Xerxes, sem Frank Miller er ennþá að vinna að, og mun fjalla um uppgang Persneska konungsins. Saga myndarinnar gerist því á undan 300. Artemesia er söguleg persóna, og var eini kvenkyns herforingi Xerxes, en líklega verður farið ansi frjálslega með sögulegar staðreyndir líkt og í fyrri myndinni, því henni er líkt sem gylltri gyðju sem sannfærir Xerxes um að safna saman her sinum og hlda í bardaga.

Aðalsöguhetjan Grikklandsmegin verður í þetta skipti Þemistókles, og fyrir nokkrum vikum bárust þær fréttir að framleiðendur myndarinnar vildu fá Joel Edgerton í það hlutverk. Bardaginn sem myndin mun fjalla um gerist samtímis fyrri myndinni, og verður sjóorrusta, með þeim Þemistókles og Artemesiu að leiða sitt hvorn flotann. Tökur eiga að hefjast í vor ef allt fer að óskum.