Sherlock Holmes 3 farin í vinnslu

Jafnvel áður en Sherlock Holmes: A Game of Shadows er gefin út hefur Warner Bros. hafið viðræður við handritshöfundinn Drew Pearce um að skrifa þriðju myndina í seríunni. Búist er við að Pearce taki við verkefninu, en í augnablikinu er hann að skrifa þriðju Iron Man myndina og eftir það mun hann para sig með leikstjóranum Guillermo del Toro til að vinna að geimveru-myndinni Pacific Rim sem hefur tökur bráðlega. Fyrir utan núverandi verkefni sín hefur hann ekki unnið að neinu markverðu.

Fyrir utan ráðningu Pearce er ekkert fleira staðfest varðandi næstu Sherlock Holmes myndina, hvað þá hvort að Guy Ritchie muni snúa aftur til að leikstýra í þriðja skiptið. Eftir klárun A Game of Shadows mun hann líklegast halda áfram að vinna að framhaldsmyndinni The Real RocknRolla, sem er að sögn hans komin með handrit en býður eftir samþykki stúdíós. Hins vegar hefur Jude Law áður sagt að hann gæti alveg séð fyrir sér að snúa aftur sem Dr. Watson í þriðja skiptið: „Ég ræð engu, augljóslega, en ég sé enga ástæðu afhverju ég gæti það ekki. Ég elska að vinna með Roberti [Downey Jr.], Guy [Ritchie] og öllu liðinu. Ég er mikill aðdáandi bókanna og það er augljóslega mikið af efni til að vinna úr, þannig við sjáum bara til.“

Á meðan er Sherlock Holmes: A Game of Shadows væntanleg 26. desember næstkomandi.