Aaron Eckhart er Frankenstein… en hvaða?

Lionsgate tilkynnti fyrir stuttu að Aaron Eckhart væri staðfestur í hlutverk Frankenstein skrýmslisins í einni af myndunum sem verið er að vinna að eftir sögunni. Myndin er byggð á teiknimyndasögunni I, Frankenstein eftir Kevin Grevioux, sem setur nútímabrag á ævintýrið klassíska. Sagan fylgir Adam Frankenstein (skrýmslið heitir það núna), sem hefur lifað af bæði 19. og 20. öldina, og á í stríði við aðrar ódauðlegar verur. Myndinni verður leikstýrt af Stuart Beattie, og er sögð eiga að koma í bíó 22. febrúar 2013. Til gamans má geta þess að Grievoux er einn af sköpurum Underworld seríunnar – og má kannski búast við settur verði svipaður stíll á þetta verkefni.

En þetta er alls ekki eina myndin um Frankenstein sem er í vinnslu! Hér er stutt yfirlit yfir þær helstu. Ég tek fram að teljast verður ólíklegt að helmingurinn af þessum myndum líti dagsins ljós, en þetta sýnir bara hvernig hugmyndaleysi stýrir svo mörgu í þessum kvikmyndaiðnaði. Maður veit þó aldrei, það er verið að gera þrjár myndir um Mjallhvíti…

Matt Reeves (Cloverfield) heldur um taumana á This Dark Endeavor, sem Summit ætlar að gera. Hún er byggð á unglingabókinni This Dark Endeavor: The Apprenticeship of Victor Frankenstein eftir Kenneth Oppel, sem kom út í sumar. Bókin fjallar um ungu tvíburana Victor og Konrad Frankeinstein. Konrad er dauðvona, því heldur Victor í ævintýri með bestu vinkonu þeirra Elizabeth, í leit að leið til að lifa að eilífu. Svo flækjast málin geri ég ráð fyrir. Ef við segjum að hin myndin gæti líkst Underworld, þá er bókað að Summit mun reyna að líkja eftir helsta smelli sínum, Twilight, með þessu.

Næst nefni ég The Casebook of Victor Frankenstein, einnig byggða á bók, í þetta skipti eftir Peter Ackroyd. Fyrirtæki Sam Raimi, Ghost House pictures, framleiðir, og Pulitzer-verðlaunahafinn David Aubourn skrifar handritið. Þessi mynd inniheldur Mary Shelly (höfund upprunalegu bókarinnar) og eiginmann hennar, ljóðskáldið Percy Bysshe Shelley sem persónur, og fjallar um ungan mann sem fer að gera tilraunir með lík eftir innblástur frá verkum þeirra.

Ekki má gleyma Wake the Dead, sem gítarleikarinn Slash er að framleiða í gegn um fyrirtæki sitt Slasher Films, byggða á Myndasögu eftir Steve Niles, sem einnig skrifaði 30 Days of Night. Haley Joel Osment snýr aftur á skjáinn eftir 8 ára fjarveru, og leikstjóri er Jay Russel. Aðalsöguhetjan er Victor Franklin, ungur læknanemi sem fer að fikta með það að hleypa lífi aftur í lík.

Og þetta er ekki allt, verkefni sem eru komin styttra á leið eru td. mynd Guillermo del Toro byggða á Frankenstein sem hann ætlar einn daginn að gera hjá Universal. Þá keypti Columbia hugmynd eftir Craig Fernandez sem kallast einfaldlega Frankenstein, og flytur upprunalegu söguna til dagsins í dag. Að lokum hefur Neil Burger (Limitless) talað um að hann vilji endurgera The Bride of Frankenstein.

Það verður að viðurkennast að þessar myndir gætu orðið jafn ólíkar og þær eru margar. En samt sem áður er þetta eitthvað annað en margar myndir um Vampírur – eða margar myndir um Zombía, eins og hafa verið undanfarin misseri. Þetta eru fullt af myndum sem að stofninum til eru allar byggðar á sömu bókinni! Jafnvel þó bara helmingurin af þessum myndum verði gerður, verða samt alltof margar Frankenstein myndir á markaðnum. En hver hljómar best?