Mesta áskorunin að finna réttu Amy

Marisa Abela fer með hlutverk Amy Winehouse í kvikmyndinni Back to Black sem kemur í bíó á Íslandi á morgun, föstudaginn 12. apríl.

Í samtali Morgunblaðsins við aðstandendur myndarinnar kemur fram að mesta áskorunin við gerð kvikmyndarinnar hafi verið að finna leikkonu sem myndi smellpassa í hlutverkið en ljóst hafi verið um leið og Abela mætti í prufur að leitinni væri lokið.

Í greininni segir að ekki hafi verið lagt upp með að finna tvífara söngkonunnar heldur einhverja sem gæti leikið hlutverkið á sannfærandi hátt. Þegar Abelu bauðst hlutverkið tók það hana hins vegar tvær vikur að ákveða hvort hún vildi taka það að sér eins og Morgunblaðið greinir frá. Ástæðan var sú að hún vissi að það krefðist mikils af henni og hlutverkinu þyrfti að mæta með virðingu og ást. „Fljótt heyrðust þó óánægjuraddir netverja um að Abela væri ekki nógu lík Amy í útliti og of stutt væri liðið frá dauða söngkonunnar til að gera mynd um hana en framleiðendur ákváðu að láta alla slíka gagnrýni sem vind um eyru þjóta,“ segir í greininni.

Back to Black (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.7

Hér er sögð saga einnar stórkostlegu dægurlagasöngkonu 21. aldarinnar, Amy Winehouse, allt frá unglingsárum og þar til hún sendir frá sér eina söluhæstu hljómplötu allra tíma. Amy féll frá í blóma lífsins 27 ára gömul....

Sá um sönginn

Abela kveðst í viðtalinu við Morgunblaðið hafa undirbúið sig vel fyrir hlutverkið en hún sér sjálf um allan söng í myndinni. Til að ná enn betri tökum á söngstíl Amy hafi hún sótt söngtíma í tvo og hálfan tíma á dag, á hverjum degi í fjóra mánuði. Þá vann hún jafnframt náið með plötuframleiðandanum Giles Martin, raddþjálfanum Anne-Marie Speed og Söruh Green, sem sá um að þjálfa hana í réttri líkamsbeitingu, svo hún líktist Amy sem mest. Abela fluttist til að mynda til Camden, þar sem Amy bjó og myndin var að mestu tekin upp, til að kynnast bænum sem var Amy svo kær. Þá lærði hún einnig á gítar svo tónlistarsenurnar yrðu enn meira sannfærandi, eins og fram kemur í greininni.

Líf Amy var á köflum þyrnum stráð og kepptust slúðurmiðlar við að birta myndir af henni í annarlegu ástandi. Þá var holdafar söngkonunnar oft og tíðum til umræðu og þá sérstaklega hvað hún þótti grönn og illa farin vegna neyslu.

Hyldýpi tilfinninga

Blaðamaður Morgunblaðsins spyr Abelu hvernig hún hafi búið sig undir að leika Amy þegar hún var sem veikust. „Ég undirbjó mig að ég held á sama hátt og fyrir allar hinar senurnar en depurðin, ósjálfstæðið og sársaukinn eru alveg á hinum enda skalans samanborið við ástina og gleðina. En Amy var þannig gerð að hún sökkti sér í hyldýpi tilfinninganna og allar tilfinningar hennar voru alltaf í botni. Þegar hún elskaði þá elskaði hún afar heitt, þegar hún fann til var sársaukinn ólýsanlega mikill svo að í öllum senunum reyndi ég að túlka það eins vel og ég gat. Fyrir þessi viðkvæmu augnablik reyndi ég að miðla sársauka Amy, sem í ákveðnum skilningi einangraði hana, en honum fylgir viss kyrrð og íhugun. Þú þarft að hafa ákveðna hugarró til að geta brugðist með sannfærandi hætti við hinum leikurunum,“ svarar leikkonan að lokum.